7.2.16

Hvor er nú betri brúnn eða rauður?

Ármann Halldórsson er ofsalega flottur kennari í VÍ. Mér finnst gaman að lesa hann og ég held að hann sé með flottari skólamönnum vefsins.
Hann birti blog um áfangakerfi versus bekkjarkerfi sem er hressandi pistill.
Mig langar samt að svara honum.
Hans pistill er hér:

Forláttu mér menntamannsi þó ég blandi mér í þessa umræðu lítillega.

Mér finnst mikilvægt að svona umræða taki tillit til allra þátta sem skipta máli. Þannig þarf maður að tengja punktana og sjá hvað kemur út.

Það eru næsta fáar rannsóknir sem ég þekki sem gera út á það að kerfi skipti máli. Þvert á móti á ég einhversstaðar OECD bók þar sem fullyrt er að menntakerfi stilli sig einfaldlega saman. HÍ kann að vilja tvítuga stúdenta en Oxford vill þá átján ára o.s.frv. Svo eru sum menntakerfi (t.d. það íslenska og það norska) byggð upp á að nemendur fái innsýn í margar greinar. Önnur, t.d það danska og það enska byggja á að nemendur fækki greinum og sérhæfi sig. Í öllum menntakerfum telja menn að breytingar á þeim muni kollsteypa háskólum landanna.

Fyrsta ályktunin er að kerfi skipta ekki máli, t.d. hvað varðar almenn próf versus sérhæfð, eða hvort nemendur hefja háskólanám 18, 19 eða 20 ára.

Hvað þá með bekkjarkerfi versus áfangakerfi?

T.d. nemendur sækja í bóknám og bekkjarkerfisskóla, að bekkjarkerfisskólar skili fleiri góðum nemendum í háskóla og að þar sé minna brottfall.

Sko.

Í fyrsta lagi er ekki skrýtið að nemendur úr 10. bekk sæki í bekkjarkerfi. Þeir eru að koma úr tíu ára bekkjarkerfi og skólakerfi sem er að langstærstum hluta bóknámskerfi.

Í öðru lagi er ekki skrýtið að bóknámsskólar skili hlutfallsega fleiri góðum nemendum til háskóla. Skárra væri það nú. VÍ og MR tóku nemendur með yfir 9,0 að meðaltali. Bekkjarskólar tóku skv. skýrslu MRN nemendur með 8 eða hærra í meðaleinkunn.

Ef slíkir skólar skila ekki háu hlutfalli nemenda í háskóla eða eru með lítið brotthvarf þá þyrfti nú heldur betur að taka til hendi þar.

Með öðrum orðum, þetta er ekki mælikvarði á kerfið.

Aukinheldur má minna á að kennslumálanefnd HÍ skoðaði árangur nemenda í skólanum út frá árangri þeirra á samræmdum prófum 10. bekkjar ef ég man rétt. Fyrst var skoðað námsgengi með hliðsjón af einkunn nemenda úr grunnskóla. Svo var skoðað eftir framhaldsskólum. Niðurstaðan var prýdd með fyrirsögninni „Framhaldsskólar skipta ekki máli“ sem særði marga.

Staðreyndin var sú að nemendur með t.d. 9 í grunnskólaeinkunn stóðu sig vel í HÍ, án tillits til þess úr hvaða framhaldsskóla þeir komu.

Annað sem nefna má en það er goðsögnin um hvaða skólar eru vinsælastir. Hún byggir á lista yfir hvaða skóla nemendur settu í fyrsta sæti þegar þeir völdu skóla að loknu grunnskólanámi. Ef við tökum hins vegar alla sem sóttu um framhaldsskóla eitthvert árið þá færist efsta sætið til Tækniskólans, en svo koma VMA, MK og FÁ svo nokkuð sé nefnt.

Þannig má segja að ég sé að segja að þessar fyrstu goðsagnir umræðunnar séu einfaldlega rangar.

Sú umkvörtun vegna þeirrar rangsleitni að allt skipulag framhaldsskólakerfisins byggi á áfangakerfi frekar en bekkjunum þá er það vegna þess að:

1.      Þegar framhaldsskólakerfið var að mótast voru nánast engar innihaldslýsingar til í bekkjarkerfisskólum. Áfanga-/fjölbrautaskólarnir tóku völdin með útgáfu námsvísa sem stjórnvöld tóku síðar upp. Sem sé skipuleg undirbúningsvinna þeirra sem leiddu framhaldsskólabyltinguna varð til þess að áfangakerfið sigraði.

2.      Sigraði? Hvað eru margir framhaldsskólar á Íslandi? Venjulega er talað um 30-34 eftir skilgreiningum. Segjum 31-35 með nýstofnuðum menntaskóla á Ásbrú. Hvað finnst þér að eigi að ráða?

a.      Af þeim eru hve margir bekkjarkerfisskólar? MR, Kvennó (skv. skilgreiningu), MS, VÍ, ML, MA. Eru þeir fleiri? Sem sagt fimmtungur lægstu tölu og sjöttungur hæstu tölu.

3.      En hvað stýrir umræðunni? Vandræðastand þeirra skóla sem handvelja nemendur með háar einkunnir. Sem sé lúxusvandamál. Á meðan eru ekki margir að hafa áhyggjur af fjórum fimmtu eða fimm sjöttu skólanna sem taka alla hina. Háar einkunnir, lágar einkunnir, fötlun, námserfiðleikar, snilligáfa. Þessir skólar eru alltaf látnir líta út sem þeir séu annars flokks. Ekki er horft til þess að frá þessum skólum koma oft prýðisnemendur sem fara á seiglu og þrautseigju og fara í háskóla og ljúka BA/BS námi, MA/MS o.s.frv. Þeir voru ekki endilega með 9 á grunnskólaprófi. Þeir voru með allt niður í fjóra.

a.      Og hvor skyldi vera skárri spítalinn – sá sem tekur aðeins þá sem ekki eru veikir eða hinn sem tekur alla?

Það er ekki kerfið sem ræður. Það er ekki skólinn sem ræður. Það er fjöldi nemenda sem ætti að fara langt en fer það ekki, þrátt fyrir að hafa komið úr elítuskóla. Og það er fjöldi nemenda sem fer alla leið þrátt fyrir hrakspár.

Það er sérlega tvennt sem ræður árangri nemenda (en það má telja margt til viðbótar).

Kennarinn er annar þátturinn. Kennari getur brotið og kennari getur byggt. Það sem kennari getur gefið krakkanum sem hefur allt í fangið (námserfiðleika, félagslega erfiðleika o.s.frv.) er ómetanlegt.

Nemandinn er hinn þátturinn. Nemandinn getur kosið að sigla í gegn á eigin vélarafli og bætt litlu við sig. Nemandinn getur líka haft sýn, markmið og haft hvatningu til að gera vel. Hann getur opnað eða lokað. Hann einn skerðir nám sitt eða eykur virðisauka sinn.

Þetta örstutta ágrip get ég byggt undir með heimildum.

Rétt meðan ég hamra þetta nöldur á skjáinn hugsa ég til allra nemendanna sem þjást af námsleiða. Ekki skólaleiða – þau elska skólann. Og á sama tíma sé ég rætt við flóttamenn sem þrá að komst í nám, því þeir trúa að nám geti bætt líf þeirra og lífsskilyrði.

OECD er á sama máli.

Við eigum haug af rannsóknum á framhaldsskólum, hérlendskar og útlendskar.

Vð þurfum bara að tengja þær saman og lesa samhengi þeirra.

En takk fyrir hugleiðingar þínar.

1 ummæli:

  1. Hæ þetta var skemmtilegt, ég reit örlítið svar: http://menntamannsi.blogspot.is/2016/02/brunn-ea-rauur-bekkjarkerfi-og.html

    SvaraEyða